ÍBV - Mostri

1/3 08: Mfl: Gunni Lalli með stórleik  Meistaraflokkur vann mjög mikilvægan sigur í dag á Mostra frá Stykkishólmi 75-64. Er liðið núna í 1.sæti í riðlinum og með sigri í næsta leik eru þeir komnir í úrslitakeppnina í 2.deild. Maður leiksins var án efa Gunni Lalli en hann skoraði 4 stig, tók 3 fráköst, var með 4 tapaða bolta og 12 heppnaðar sendingar en enginn talin sem stoðsending. Baldvin kom einnig gríðarlega sterkur inn en hann stjórnaði vatninu á bekknum eins og sannur herforingi. Aðrir voru ágætir og nú er glatt á hjalla hjá liðinu. Þvílík gleðistund.

Stigaskor ÍBV: Sigurjón 24, Bjössi 19, Binni 14, Steini 6, Sverrir Marinó 5, Gunni Lalli 4, Símon "2.06m" 2 og Alexander Jarl 1. - Diddi, Óli og Kristján spiluðu einnig en skoruðu ekki stig að þessu sinni.

Baldvin var í hópnum en spilaði ekki útaf ökklameiðslum. Arnsteinn var í London að leika sér og Sverrir Karl komst ekki í leikinn að þessu sinni. Vantaði þarna 3 mjög sterka leikmenn en samt öruggur og góður sigur. Framhaldið lítur vel út og næst er það Laugarvatn 15.mars.      IBV.is/karfa


3 valdir í landsliðshópa.

255bebd790c0564d6192ace2ace6702f_Kristj%E1nKistján Tómasson leikmaður 10.flokks og Meistaraflokks hefur verið valinn í 18 manna hóp U16 landsliðs sem mun æfa helgina 8. og 9. mars nk í undirbúning sínum fyrir NM sem fer fram 30. apríl til 4. maí. Óskum Kristjáni til hamingju með þennan áfanga og vonandi að hann komist í 12 manna hópinn. Kristján hefur staðið sig mjög vel í vetur líkt og í fyrra og hefur Kristján verðið að skora um 20 stig og verið að hirða tæplega 10 fráköst að meðaltali í leik.    

Þá hafa þeir Alexander Jarl Þorsteinsson og Jóhann Rafn Rafnsson sem hafa verið valdir í 24 manna hóp U15 ára landsliðs sem mun æfa helgina 8-9 mars.         ibv.is/karfa


Meistaraflokkur: Glói - ÍBV 66-93

Meistaraflokkur vann Glóamenn í Seljaskóla í gær með 93 stigum gegn 66. Var þetta nokkuð öruggur og sannfærandi sigur en að sögn okkar manna vorum við ekki að spila neitt svakalega vel. En sigur er sigur og kvörtum við ekkert yfir því. Spiluðu allir leikinn sem voru með og stóðu sig þokkalega. Náðu allir að skora en Baldvin meiddist snemma leiks og spilaði ekki mikið í dag.

Í hópinn í dag vantaði Bjössa þjálfara en hann var í eyjum með Minniboltanum, Gylfi Braga er meiddur og einnig voru Kristján Tómasson og Ólafur Sigurðsson hvíldir að þessu sinni enda eru þeir búnir að vera ferðast hingað og þangað með 10.flokk það sem af er vetri.

Stigaskor samkvæmt heimildarmanni heimasíðunnar: Sigurjón 23, Binni 17, Sverrir Kári 12, Addi 9, Gunni Lalli 9, Diddi 9, Sverrir Marínó 6, Símon 4 og Baldvin 4 sti   ibv.is/karfa

Minnibolti: 3 sigrar af 4 - frábær árangur!

4d4b569bf488979f0ea83a9ed714acd7_IMG_5685 Um helgina lék  í minniboltinn á heimavelli sem var kærkomið eftir mörg ferðalög í vetur. Þeir   unnu mjög góðan sigur á laugardag  á Þór frá Þorlákshöfn 60-17.  Liðið tapaði svo í miklum baráttuleik fyrir sprækum Grindvíkingum 43-48.  Hefði sigurinn getað endað hvorum megin en gestirnir voru grimmari í seinni hálfleik, hittu líka betur úr skotunum og uppskáru sanngjarnan sigur.  Stigaskor ÍBV á móti Þór Þorl: Siggi 13, Aron 12, Haffi 10, Kristberg 8, Valli 7, Devon 6, Ársæll 2 og Kristján 2. - Sölvi, Guðjón og Tindur skoruðu ekki að þessu sinni en stóðu sig vel.  Stigaskor ÍBV á móti Grindavík: Aron 23, Siggi 8, Valli 7, Devon 4 og Haffi 1. - Kristberg, Sölvi, Ársæll, Tindur, Guðjón og Kristján skoruðu ekki að þessu sinni. Viktoría var í hópnum en kom ekki við sögu. Minniboltinn spilaði 2 leiki í gær á heimavelli í A riðli og unnu báða leikina mjög verðskuldað. Tryggði liðið sér þátttökurétt í úrslitakeppninni en þetta er fyrsti flokkurinn á vegum ÍBV í körfubolta sem nær þessum frábæra áfanga! - Fyrsti leikur dagsins var á móti efnilegu og sterku liði KR og vannst leikurinn 47-43.  Stigaskor ÍBV í leiknum: Aron 18, Valli 17, Devon 6, Kristberg 4 og Siggi 2. Aðrir leikmenn skoruðu ekki í leiknum. Seinni leikur sunnudagsins og jafnframt síðasti leikur var við Stjörnuna. Með sigri í þessum leik gat liðið tryggt sér 2.sætið í riðlinum. Endaði leikurinn 52-39 fyrir ÍBV og var sigurinn aldrei í hættu. Spiluðu allir vel í leiknum og var stemmningin góð í herbúðum okkar. Voru allir duglegir og börðust allan tímann. Vildu gestirnir meina að um heimadómgæslu hafi verið að ræða, alveg óskiljanlegt. Villurnar skiptust þannig að ÍBV fengu 10 en Stjarnan 12 villur!Stigaskor ÍBV í leiknum: Aron 25, Siggi 8, Kristberg 7, Ársæll 6, Valli 4 og Kristján 2. Aðrir skoruðu ekki í leiknum. Lokastaðan: 1.UMFG - 2.ÍBV - 3.KR - 4.Stjarnan - 5.Þór Þorl.   

8.flokkur fór á road trip um helgina, vegna frestaðra leikja.  Þeir unnu einn leik og töpuðu 3, nánari um það síðar.


Úrslit frá síðustu helgi. Ófærð hamlar för þessa helgina.

M.fl.: Álftanes - ÍBV 84 - 70 / 10.fl í 8 liða bikar: Tindastóll - ÍBV 56 - 55      

2 tapleikir í dag hjá ÍBV. Vantaði heila 6 leikmenn hjá M.fl. frá því í síðasta leik og þar af vantaði mjög mikilvæga leikmenn eins og miðherjann Baldvin Johnsen, þjálfarann Björn Einarsson, hinn efnilega Kristján Tómasson sem er í 10.flokk og Steina löggu! En þetta eru allt leikmenn sem hafa verið að byrja inná í vetur, taka mikið af fráköstum og skora mikið og munaði mjög mikið um að spila án þeirra í leiknum.

10.flokkur tapaði í hörku leik á Sauðárkróki eftir langt og strangt ferðalag og voru lokamínúturnar dramatískar og í dýrari kantinum.

Minni boltinn átti að fara á mót í Kópavoginum og var því móti aflýst  og 8.  flokkur átti að fara  til Grindavíkur, en því miður varð að fresta för, vegna mikilla samgöngu erfiðleika.

 


Tveir leikmenn til viðbótar í landsliðsúrtak...

2 til viðbótar frá ÍBV í landslið.    

Í gær var valið í landslið fyrir drengi sem eru fæddir 1993 og síðar eða svokallað U-15 ára landslið. 2 leikmenn frá okkur voru valdir í þennan 40 manna hóp en þetta eru þeir Alexander Jarl Þorsteinsson og Jóhann Rafn Rafnsson einnig betur þekktir sem Lexi og Blómi. Eru þessir peyjar vel að þessu komnir og verður gaman að fylgjast með framhaldinu sem fyrr.  Mun þessi hópur æfa saman milli jóla og nýárs eins og U-16 ára hópurinn. Óskum við þeim peyjum til hamingju með þetta.  Áfram ÍBV.   ibv.is/karfa


Yngri strákarnir hafa komið á óvart og eru mikilvægir.

  | eyjar.net | Leikmannakynning ÍBV í körfubolta

segir Arnsteb6bdd25566921685ba0ce47d66661da5_IMG_Addiinn Ingi Jóhannesson leikmaður ÍBV í körfubolta

Í dag birtum við leikmannakynningu úr körfuboltanum en sá sem gefur lesendum eyjar.net upplýsingar um sjálfan sig er Arnsteinn Ingi Jóhannesson. Arnsteinn er einn af máttarstólpum ÍBV í körfubolta og hefur tekið þátt í uppbyggingu körfuboltans í Vestmannaeyjum síðustu ár.

Fullt nafn:
Arnsteinn Ingi Jóhannesson

Fæðingarár -og staður: 
14. desember 1974 á Akureyri þar sem ég ólst upp og bjó til tvítugs.

Fjölskylduhagir & foreldrar:
Er giftur Páleyju Borgþórsdóttur og eigum við framtíðarleikstjórnandann Borgþór Eydal og verðandi fyrirliða fyrsta kvennaliðs ÍBV í meistaraflokki í körfubolta Andreu Dögg. Foreldrar mínir eru Jóhannes Axelsson og Sigrún Arnsteinsdóttir og búa þau á Akureyri eins og systkini mín.

Búseta:
Heiðarvegur 13 í Eyjum.

Atvinna:
Starfa sem íþróttakennari við Grunnskóla Vestmannaeyja ásamt hliðarstörfum sem eru íþróttakennsla leikskólabarna bæjarins og kennsla við Golfskóla GV.
 
Áhugamál:
Þau eru misjöfn eftir tíð og tíma. Fjölskyldan og vinir fá sinn tíma eftir að ég lauk námi en helst ber að nefna að ég er mikill golffíkill og nota hvert tækifæri til að spila með vinum og kunningjum. Körfubolti og fótbolti hafa frá barnæsku skipað stóran sess í lífi mínu. Þjálfun barna í íþróttum er mér mikilvæg og ætla ég mér langt á þeim vettvangi. Ljósmyndun er nýjasta æðið og svo hef ég afskaplega gaman af því að starfa með félögum mínum í Kiwanis.

Staða á vellinum:
Ég er upprunalega skotbakvörður en hef mikið spilað sem leikstjórnandi eftir að ég gekk til liðs við ÍV/ÍBV.

Hæð:
185,5 í skóm ;-)

Ferill:
Byrjaði að æfa körfubolta með Þór Akureyri þegar ég var 8 ára. Fáir æfðu þessa íþrótt á þeim tíma og þegar ég kom til Eyja minnti staða körfunnar hér um margt á stöðu hennar fyrir norðan þessi fyrstu ár mín í boltanum. Ég spilaði minn fyrsta meistarflokksleik 16 ára gamall á móti Keflavík og var í úrvals- og fyrstu deild með Þórsurum til tvítugs. Þá elti ég konuna til Eyja og tók þátt í að endurvekja Íþróttafélag Vestmannaeyja sem var grunnurinn að körfuboltafélagi okkar Eyjamanna. Þá tók við ½ ár í háskólabolta í Þýskalandi og eftir að ég fór suður í nám lék ég í eitt ár með ÍS í fyrstu deildinni. Gilli Geirs. og Víðir læknir fengu mig svo til að spila á ný með ÍV og var stefnan sett upp í 1. deild. Það tókst og hef ég leikið með liðinu síðan ásamt því að þjálfa það fjögur tímabil og koma að rekstri þess í nokkur ár.

Markmið í lífinu:
Að leggja mitt af mörkum til að komandi kynslóðir verði hæfar til að gera samfélag okkar enn betra.

Mottó:
Reyndu og þú færist nær takmarkinu.

Minnistæðasti leikur:
Sigrar sem maður hefur sjálfur átt stóran þátt í standa ávallt upp úr. Ég man vel eftir nokkrum en leikur einn á æfingamóti í Borgarnesi milli jóla og nýárs árið 1993 er leikur sem ég man nánast ennþá í smáatriðum. Þar spiluðum við Þórsarar gegn KR-ingum sem þá höfðu nýverið fengið til sín landsliðsmann og fyrirmynd mína í körfunni, Fal Harðarson, frá Bandaríkjunum þar sem hann spilaði í háskólaboltanum. KR var þarna í úrvalsdeild en við í 1. deildinni og því þótti það tíðindum sæta að við skyldum rúlla þeim upp með um 20 stigum. Meðal leikmanna KR voru David Grissom sem þjálfaði síðar ÍV og einnig Friðrik okkar Stefánsson. Ég átti einn minn besta leik á ferlinum þar sem ég setti niður nánast öll skot og skoraði um 25 stig. Minnisstæðast var þó að varnarleikur minn lét Fal líta út eins og byrjanda. Hann rúllaði mér samt upp þegar við mættumst ári seinna í úrvalsdeildinni og gleymist sá leikur líka seint.

Erfiðasti andstæðingurinn:
Bræðurnir Elliði og Svavar Vignis. Það er nánast vonlaust að vinna menn sem spila alltaf eftir eigin reglum. Af þeim sem kunna körfubolta var Keflvíkingurinn Bobby Walker ótrúlega góður og Einar Hólm Davíðsson, vinur minn, var flottur varnarmaður.

Hver er grófastur í liðinu:
Pálmi hefur beittustu vopnin og notar þau óspart.

Besti körfuknattleiksmaður fyrr og síðar:
M. Jordan þarf ekki að kynna fyrir fólki en hann stendur John Stockton jafnfætis.

Besti körfuknattleiksmaður sem Ísland hefur alið af sér:
Valur Ingimundarson er vafalítið besti leikmaður efstu deildar fyrr og síðar. Tölfræði hans er ógnvænleg og var hann ennþá mjög góður um fertugt. Jón Arnór Stefánsson er síðan að gera gríðarlega góða hluti erlendis og er mjög vanmetinn vegna takmarkaðrar fjölmiðlaumfjöllunar.

Uppáhaldslið:
ÍBV, Þór Akureyri, Utah Jazz og Orlando Magic.

Er framtíðin björt í körfuboltanum hjá ÍBV:
Félagið hefur náð langþráðu jafnvægi í rekstrinum og kemur margt gott fólk að starfinu í dag. Slíkt er auðvitað forsenda frekari framfara en þær hafa verið miklar hjá félaginu sl. tvö ár. Yngri flokkarnir verða sífellt fleiri og það hlýjar manni um hjartarætur að vita til þess að félagið bjóði ungviði bæjarins fleiri afþreyingarvalkosti en áður. Starfsemin mun því halda áfram að eflast nk. ár og vafalítið ala af sér framtíðar leikmenn sem og framtíðar félagsmenn sem halda öllu starfi gangandi.

Ég hef þó áhyggjur af því að félagið muni ekki eiga möguleika á því að spila í efstu deild næstu 20 árin ef ekki verður sett parket í gamla sal Íþróttamiðstöðvarinnar. Gólfið er komið á tíma og fyrirhugað að skipta því út á næsta ári. Körfuknattleikssamband Íslands setur þær kröfur að spilað sé á parketi í úrvalsdeild þar sem meiðslahætta er mun minni en á dúk skv. rannsóknum. Skiptir þá engu hvort um er að ræða iðkun körfu- eða handknattleiks. Hver veit hvort sömu kröfur verið gerðar á leiki í 1. deild sem við munum vafalítið spila í á næstu árum. Framtíð félagsins mun því vafalítið standa og falla með vali bæjaryfirvalda á gólfefni.

Hvernig líst þér á liðið í vetur:
Mjög vel. Við erum að styrkjast með tilkomu nýrra leikmanna sem gerir okkur enn líklegri til að tryggja okkur sæti í 1. deild að ári. Yngri strákarnir sem eru ekki nema 15 ára hafa komið mér verulega á óvart og eru okkur mikilvægir leikmenn. Liðið nær fáum æfingum þar sem allir eru samankomnir og því byggist sóknarleikur okkar mikið á framtaki fárra leikmanna. Ég hef trú á því að við förum upp í vor og æfingahópurinn hér í Eyjum verði nógu stór næsta vetur til að æfa eðlilega, þ.e. á einum stað. Þökk sé öflugu yngri flokka starfi og duglegum Eyjakonum sem eru í akkorði við að flytja inn sterka körfuknattleiksmenn!

Í hvaða sæti mun ÍBV enda í vetur ?
Sigurvegarar!

 


Fastur fyrir !

eyjar.net; Leikmannakynning ÍBV í körfubolta

se2f51f975a8115e1e93973f8417811906_baldvingir Baldvin Johnsen leikmaður ÍBV í körfubola

Í dag birtum við leikmannakynningu úr körfuboltanum en sá sem gefur lesendum eyjar.net upplýsingar um sjálfan sig er Baldvin Johansen. Baldvin er einn leikreyndasti leikmaður ÍBV í körfubolta.

Fullt nafn: 
Baldvin Johnsen

Fæðingarár -og staður: 
11. nóvember 1976, Reykjavík.

Fjölskylduhagir & foreldrar:
Giftur Aldísi Gunnarsdóttur eyjamær og saman eigum við tvö yndisleg börn, Draupni Dan 4 ára og Karítas Ósk 3 mánaða. Foreldrar mínir eru Guðfinnur Johnsen (sonur Árna Johnsen og Olgu Karlsdóttur) og Dýrfinna Baldvinsdóttir ættuð frá Melrakkasléttu og Kelduhverfi norður í landi.

Búseta:
Ég bý í fögrum fjallasal á suðurhafseyjunni Heimaey.

Áhugamál:
Fjöskylda og vinir, lundaveiði og úteyjalíf, íþróttir og heilsurækt, útivist, vinnan, stjórnmál og svo auðvitað heimsfriður.

Staða á vellinum:
Aðalmaðurinn hverju sinni...(hehe)

Hæð:
203

Ferill:
Ég hóf ferilinn hjá Haukum í Hafnarfirði undir leiðsögn Ólafs Rafnssonar núverandi forseta ÍSÍ. Ólst upp í körfunni hjá Haukum og naut þess að hafa marga frábæra þjálfara á ferlinum eins og til að mynda Ingvar Jónsson sem hefur verið nefndur faðir körfuboltans í Hafnarfirði, John Rhodes þjálfaði mig á unglingsárunum og kenndi mér margt um lífið innan sem utan vallar. Einar Einarsson bróðir Bjössa, þjálfarans okkar hjá ÍBV, þjálfaði mig líka um skeið hjá Haukunum og lærði ég margt af honum. Auk þessa tók ég þátt í gríðarlega skemmtilegu ævintýri með drengja- og unglingalandsliðum Íslands þar sem Axel Nikulásson keflvíkingur/KR ingur þjálfaði og stýrði okkur til góðs árangurs. Undir lok ferilsins í úrvalsdeild spilaði ég nokkra leiki með Val og síðan reyndi ég aðeins fyrir mér hjá Ármanni-Þrótt í 1. deildinni áður en ég kom til Eyja.

Markmið í lífinu:
Að njóta lífsins með konunni minni og fylgjast með börnunum mínum blómstra.

Mottó:       
Dansaðu eins og enginn sé að horfa!!! 
                       
Minnistæðasti leikur:
Sigur á úrvalsdeildarliði Keflavíkur á þeirra heimavelli. Við spiluðum fyrir troðfullu húsi í Keflavík með tilheyrandi stemmningu og látum og stálum sigrinum á síðustu sekúndunni....það var með ljúfari sigrum á ferlinum ...annar minnisstæður leikur var þegar við spiluðum við KR í KR-heimilinu. Þetta var fyrsta árið sem ég spilaði í úrvalsdeildinni undir stjórn Ingvars Jónssonar. Leikurinn var æsispennandi og mikið tekist á og undir lok leiksins dæmdi dómarinn fimmtu villuna á kanann okkar John Rhodes. Ég var settur inná og man að ég var að drepast úr stressi, þetta voru örugglega ekki nema 1-2 mínútur sem voru eftir af leiknum þegar ég kom inná og allt í járnum...á síðstu sekúndunni fékk ég boltann undir körfunni og þurfti bara að setja eitt sniðskot ofan í körfuna og einhvern vegin tókst mér að koma boltanum í hringinn....við unnum leikinn með einu stigi og mér var fagnað ógurlega fyrir vikið og kaninn okkar John Rhodes bauð mér út að borða á Pizza 67 eftir leikinn....þetta er nú sennilega minnisstæðasta karfan sem ég hef gert á ferlinum.

Erfiðasti andstæðingurinn:
Körfubolti er oft sagður vera leikur án snertinga en ég hef aldrei almennilega getað skilið þá fullyrðingu því mín reynsla er einmitt þveröfug...það er kannski af því ég spila stöðu miðherja sem er alltaf í harkinu inni í teignum...þar hef ég háð marga hildina við ýmsa góða menn og þrátt fyrir harkaleg átök á báða bóga þá hefur nú yfirleitt verið gengið af velli með vinskap eða að minnsta kosti án illinda. Albert Óskarsson miðherji/framherji hjá Keflavík var alltaf  erfiður viðureignar, Alexander Ermolinski sem spilaði lengi með Skallagrími var líka ansi seigur, auk þess að vera risastór þá var hann baneitraður utan við 3ja stiga línuna og mátti aldrei missa sjónar af honum. Fleiri kæmu vel til greina í þessu hlutverki, Ari Gunnarsson Skallagrími, Bjarni Magnússon ÍA/UMFG, Páll Kristinsson UMFN og svo framvegis.

Hver er grófastur í liðinu:
Ætli við Bjössi séum ekki grófastir...ég hef reyndar alltaf frekar vilja líta á mig sem fastan fyrir heldur en að vera eitthvað grófur leikmaður, það hljómar einhvern vegin betur.

Besti körfuknattleiksmaður fyrr og síðar:
Earwin Magic Johnson (LA Lakers), Larry Bird (Boston) og Michael Jordan (Chicago Bulls)....mestu snillingar allra tíma í körfunni...engin spurning.

Besti körfuknattleiksmaður sem Ísland hefur alið af sér:
Jón Arnór Stefánsson hefur klárlega náð lengst af  okkar körfuboltamönnum en Frikki Stefáns eyjapeyji er líka alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér enda hefur hann náð gríðarlegum góðum árangri í körfunni hér heima á Íslandi og er okkur eyjamönnum til sóma.

Uppáhaldslið:
ÍBV er auðvitað í uppáhaldi og svo slær Haukahjartað alltaf í takt.

Er framtíðin björt í körfuboltanum í vetur:
Framtíð körfuboltans í Eyjum er mjög björt um þessar mundir og við erum með marga mjög öfluga einstaklinga í yngri flokkum félagsins. Þeir sem mættu á leikinn við Keflavík um daginn sáu það mjög vel að yngri leikmenn liðsins eru að verða klárir í meistaraflokks bolta þrátt fyrir ungan aldur. Tveir leikmenn 10. flokks voru valdir í landsliðsúrval í sínum aldursflokk í vikunni, þeir Kristján Tómasson og Ólafur Sigurðsson. Þar fara tveir mjög efnilegir strákar í elsta flokknum. Þar fyrir utan eru yngstu leikmenn félagsins gríðarlega öflugir og spila í A-riðli í vetur sem þýðir að þeir eru meðal 5 bestu liða landsins í sínum aldursflokki í dag. Já framtíðin er björt fyrir körfuboltann í vetur og ég verð ílla svikinn ef við verðum ekki í baráttu um íslandsmeistaratitil í einhverjum af yngri flokkunum.

Hvernig líst þér á liðið í vetur:
Mér líst mjög vel á liðið okkar í vetur, margir öflugir leikmenn og nú síðast bættist í hópinn Sigurjón Örn sem kom frá Stjörnunni og styrkir hann liðið gríðarlega enda búinn að vera að spila í úrvalsdeildinni í vetur. Ef allir haldast heilir í vetur þá eigum við að geta gert góða hluti hér í vetur.

Í hvaða sæti mun ÍBV enda í vetur ?
Ég er stórhuga að eðlisfari og ætla ÍBV ekki minna hlutskipti heldur en að sigra sinn riðil í 2. deildinni og keppa til úrslita í 2 deildinni í vor. Ef guð og lukkan lofar tekst okkur að fara upp um eina deild og þá erum við farin að tala saman. Opinbert markmið okkar er að spila í úrvalsdeild eftir 3-5 ár þannig að við höfum þetta ár og næsta til að koma okkur upp úr 2. deildinni.

Áfram ÍBV


Ætlum upp í 1.deild.

  eyjar.net |Leikmannakynning ÍBV í körfubolta

1d80db5d314ea1937a6a22064b306c48_sverrir_marino

segir Sverrir Marinó Jónsson leikmaður ÍBV í körfubolta

Í dag birtum við leikmannakynningu ÍBV í körfubolta. Fyrr í vetur áttust við í bikarkeppni KKÍ ÍBV og Keflavík og því er viðeigandi að birta kynningu á Sverri Marinó en hann er fæddur í Keflavík og með Keflavík byrjaði hann að æfa körfubolta. Hann er í fjarnámi við Kennaraháskóla Íslands

Fullt nafn:
Sverrir Marinó Jónsson

Fæðingarár -og staður: 
1981 í Keflavík

Fjölskylduhagir & foreldrar:
Er trúlofaður Jónu Grétu Grétarsdóttur.
Foreldrar eru Olga Sædís Bjarnadóttir og Jón Már Sverrisson

Atvinna:
Er í fjarnámi við Kennaraháskóla Íslands, vinn með náminu á leikskólanum Gullborg

Áhugamál:
Körfubolti, upplýsingatækni, bílar,

Staða á vellinum:
Bakvörður

Hæð:
180 cm

Ferill:
Byrjaði hjá Keflavík með yngri flokkunum og fór svo í Týr , ÍV og spila núna með ÍBV
 
Markmið í lífinu:
Ekki gera í dag það sem þú getur gert á morgun!  
 
Mottó:
Ekkert stress
  
Minnistæðasti leikur:
ÍBV vs.  Keflavík

Erfiðasti andstæðingurinn:
Enginn sérstakur

Hver er grófastur í liðinu:
Veit það ekki

Besti körfuknattleiksmaður fyrr og síðar:
Jordan

Besti körfuknattleiksmaður sem Ísland hefur alið af sér:
Guðjón Skúlason

Uppáhaldslið:
ÍBV, Keflavík og Chicago Bulls

Er framtíðin björt í körfuboltanum í vetur:
Ég myndi segja að framtíðn sé mjög björt hjá okkar flokkum. Það eru allir flokkar hjá okkur í topp

Hvernig líst þér á liðið í vetur:
Mjög vel, sérstaklega ef að við náum að sleppa við meiðsli (og aðrar hindranir ) í hópnum

Í hvaða sæti mun ÍBV enda í vetur ?
Kemur ekkert annað til greina en að ná sæti í 1. deild.


Binni hefur trú á liðinu.

Tekið af eyjar.net:
Leikmannakynning ÍBV í körfubolta.    Í dag birtum við leikmannakynningu úr körfuboltanum en sá sem gefur lesendum eyjar.net upplýsingar um sjálfan sig er Brynjar Ólafsson eða Binni eins og hann er alltaf kallaður.

Fullt nafn:
Brynjar Ólafsson

Fæðingarár og staður: 
1985 - Vestmannaeyjar

Fjölskylduhagir & foreldrar:
Á kærustu sem heitir Ragnheiður Lind Geirsdóttir. Foreldrar eru Ólafur Óskar Stefánsson og Edda Úlfljótsdóttir

Atvinna:
Vinn á frístundarheimili
 
Áhugamál:
Körfubolti, golf, flugvélar og margt fleira

Staða á vellinum:
það mun vera undir körfunni  

Hæð:
2,01

Ferill:
Í.V. og Í.B.V.

Markmið í lífinu:
Að láta sér líða vel

Mottó:
það sem drepur þig ekki gerir þig bara sterkari

Minnisstæðasti leikur:
ætli það sé ekki bara ÍBV vs. Keflavík

Erfiðasti andstæðingurinn:
Keflavík

Hver er grófastur í liðinu:
nefni enginn nöfn

Besti körfuknattleiksmaður fyrr og síðar:
Charles Barkley

Besti körfuknattleiksmaður sem Ísland hefur alið af sér:
Frikki Stef

Uppáhaldslið.
Pheonix Suns

Er framtíðin björt í körfuboltanum í vetur:
Já hún er mjög björt í vetur. Vorum að fá núna liðstyrk og menn bara duglegir að æfa og halda sér í formi. Þannig ég hef mikla trú á liðinu í ár.

Hvernig líst þér á liðið í vetur:
Mér líst bara vel á liðið í ár. Erum með sterkt og gott lið. Ef menn halda einbeitningunni við körfuboltann og sína góðan metnað þá er ekki spurning að við eigum eftir að fara upp í 1.deild

Í hvaða sæti mun ÍBV enda í vetur ?
Við eigum klárlega eftir að enda á toppnum. Í riðlinum og í úrslitakeppninni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

IBV KARFA

Höfundur

ÍBV KARFA ..
ÍBV KARFA ..

http://ibv.is/

 http://ibvkarfa.net

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IBV
  • ...0497_494056
  • IMG_0497
  • 10.flokkur
  • Flottir

Nýjustu myndböndin

Hverjir eru bestir...?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 489

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband