1.10.2010 | 12:40
Markmiðið að byggja upp öflugt lið.
01. október 2010
Jón Gunnar Magnússon þjálfar körfuboltann í vetur - Bjartsýnn á árangur
- Nýi þjálfarinn í viðtali í Fréttum
Körfuknattleiksfélag ÍBV réði á haustmánuðum nýjan yfirþjálfara. Sá á reyndar ættir sínar að rekja til Eyja en faðir Jóns Gunnars Magnússonar, Magnús Rúnar Jónsson, bjó hér með fjölskyldu sinni á Hásteinsvegi 52 þar til örlaganóttina 23. janúar 1973 og fjölskyldan sneri ekki aftur heim eftir gos. Þar til nú að Jón Gunnar kemur til að þjálfa körfuboltafélag ÍBV.
Er uppalinn Garðbæingur og fæddur 1981 sem gerir mig 29 ára," sagði Jón Gunnar þegar hann var beðinn um að segja svolítið frá sjálfum sér. Ég byrjaði reyndar í körfubolta í Haukum en það var af þeirri einföldu ástæðu að það var enginn körfubolti hjá Stjörnunni á þeim tíma. Ég byrjaði 10 ára gamall í minnibolta árið 1991. Þegar ég var svo í 7. flokki byrjaði körfuboltinn hjá Stjörnunni loksins en við vorum nokkrir úr Garðabænum sem höfðum verið að æfa með öðrum félögum.
Ég fór reyndar ekki strax yfir, heldur spilaði aðeins lengur með Haukum en gaf mig að lokum og skipti yfir í Stjörnuna þegar allir félagarnir voru komnir þangað. Ég spilaði sem sagt frá og með 8. flokki og alveg upp í meistaraflokk.
Sigurjón Lárusson, sem nú býr hér í Eyjum, var einmitt einn af mínum félögum og við spiluðum saman upp yngri flokkana ásamt fleiri strákum. Við vorum með ágætis hóp í þessum árgangi og náðum að lokum alla leið upp í úrvalsdeild. Sjálfur spilaði ég fyrsta meistaraflokksleikinn 15 ára gamall," sagði Jón Gunnar en ástæða þess að hann byrjaði svona ungur í meistaraflokki var að hann tilheyrði elsta árgangi Stjörnunnar sem kom upp í gegnum yngri flokkana.
Meistaraflokkur var þá í 1. deild eða þeirri næstefstu og það var mjög gott fyrir okkur, því þá fengum við strákarnir að spila meira en ef liðið hefði verið í úrvalsdeild. Við fengum því dýrmætt tækifæri sem við bjuggum svo að í framtíðinni. Ég á að minnsta kosti að baki nokkra leiki með meistaraflokki í úrvalsdeild."
Vildi alltaf segja mönnum til
Af hverju fórstu svo að þjálfa?
Gallinn hjá mér var kannski lengi vel sá að ég var mikið fyrir það að greina hvað var í gangi. Mér fannst ég alltaf geta bent mönnum á hvað þeir gætu gert betur þannig að fljótlega kom í ljós að það bjó einhver þjálfari í mér. Ég byrjaði sem aðstoðarþjálfari með Kevin Grandberg sem spilaði m.a. með ÍR og Stjörnunni en hann var að þjálfa yngri flokkana hjá Stjörnunni. Fljótlega var ég gerður að aðalþjálfara og hef mest haldið mig við þjálfun drengja á aldrinum 14 til17 ára, þótt ég hafi þjálfað allan aldursskalann."
Svo hefur þú farið til Bandaríkjanna líka til að þjálfa í æfingabúðum?
Já, ég hef reynt að gera það á hverju ári. 1996 fór ég í fyrsta skipti til Bandaríkjanna en þá fór 10. flokkur Stjörnunnar í æfingabúðir og ég var þá leikmaður. Björn Leósson, þjálfari hjá Stjörnunni, hafði tengsl við Bandaríkin og við fórum til Gettysburg í Pennsylvaníu í æfingabúðir sem voru þar. Þetta var mjög skemmtileg ferð því við gistum hjá fjölskyldum, tveir og tveir saman þannig að við fengum að kynnast bandarísku samfélagi mjög vel. Mér fannst þetta svo gaman að þegar ég var að þjálfa flokk sem hafði áhuga á að fara út, hafði ég samband við sama aðila og komst að lokum að með liðið mitt í æfingabúðum svipuðum þeim og við fórum í á sínum tíma. Þær heita Keystone State og hafa verið starfræktar í yfir 20 ár. Eftir að hafa verið með mína stráka þarna í búðunum spurðist ég fyrir og óskaði eftir því að fá að vera lengur í æfingabúðunum að þjálfa. Það var sjálfsagt mál og þetta var það gaman að ég hef farið þarna út árlega og hef auk þess heimsótt fleiri æfingabúðir í Bandaríkjunum, m.a. Sixers Camp, sem ég veit að einhverjir hér kannast við og svo Syracuse, þar sem aðstoðarþjálfari bandaríska landsliðsins heldur úti æfingabúðum."
Meiri agi og keppni í Bandaríkjunum
Jón Gunnar segir að með þessum ferðum öðlist hann ekki aðeins meiri reynslu sem þjálfari, heldur stækkar tengslanet hans í körfuboltaheiminum. Þetta er svolítið þannig að ef þú ert kominn inn í netið, þá geturðu alltaf fundið tengingu við aðila þarna úti. Það er alltaf maður sem þekkir mann. Ég hef farið svolítið víða og ef ég sé tækifæri til að taka þátt í svona æfingabúðum, þá stekk ég á það."
Sérðu mikinn mun á bandarískum og íslenskum körfubolta?
Já, það er gríðarlegur munur. Í Bandaríkjunum verða ungir leikmenn góðir á undan þeim íslensku. Þarna úti er mikið lagt upp úr árangri enda er mikið undir. Leikmenn sem skara fram úr geta fengið háskólastyrki þannig að það er meira lagt upp úr að gera leikmenn mjög góða strax. Íslenskir leikmenn minnka bilið svo á unglingsaldrinum.
Auk þess er umhverfið meira hvetjandi úti í Bandaríkjunum, þar sem eru fleiri góðir leikmenn þannig að þú þarft virkilega að standa þig ef þú ætlar ekki að týnast. En á móti finnst mér við hér heima leggja meiri áherslu á grunnatriðin í körfuboltanum sem menn úti hafa minni áhyggjur af. Þar er það annað hvort þriggja stiga eða keyrt inn að körfunni en hér heima er lögð meiri áhersla á grunnatriðin."
Jón Gunnar segir jafnframt að aginn sé miklu meiri úti en hér á Íslandi. Aginn er gríðarlegur og þjálfarinn fær leyfi til að þrýsta mun meira á unga leikmenn en hér heima. Þannig er samfélagið bara, foreldrar standa á bak við þennan þrýsting þjálfaranna enda, eins og ég sagði áðan, þá er meira undir þarna úti varðandi háskólastyrki og annað. En samfélagið hér myndi aldrei leyfa sömu þjálfunaraðferðir og þarna úti."
Og hvorri aðferðinni ertu hlynntari?
Ég reyni að blanda þessu tvennu saman. Ég hef prófað báðar aðferðir en þykir best að blanda þessu saman. Það hafa margir skammað mig fyrir að vera með of erfiðar æfingar en þegar frá líður, þá sjá þeir að þeir hafa grætt á því. Best af öllu er hins vegar þegar allir leikmennirnir eru samtaka á æfingum og æfa á sama hraða. Þess vegna legg ég upp með að hafa æfingarnar skemmtilegar og vissar reglur inn á milli til að ýta aðeins við þeim."
Eyjamaðurinn" snýr aftur
Nú hefur mekka körfuboltans ekki verið í Vestmannaeyjum. Hvernig leist þér á að koma hingað?
Þeir voru nú góðir á sínum tíma, ég keppti m.a. á móti þeim í 1. deildinni. Sigurjón Lárusson, formaður körfuknattleiksdeildar ÍBV, er æskuvinur minn og pabbi, Magnús Rúnar Jónsson, bjó hér fram að gosi ásamt foreldrum sínum þannig að ég tengist Eyjunum. Það var ekki svo stórt stökk fyrir mig að koma hingað. Foreldrar pabba hétu Ása Magnúsdóttir og Jón Hermundsson, þau bjuggu að Hásteinsvegi 52 en komu ekki aftur eftir gos.
Þá fluttu þau í Kópavoginn og pabbi byggði svo hús í Garðabæ þar sem við áttum svo heima. Þau hafa reyndar oft sagt við mig að ég sé Eyjamaður þannig að ég er kannski bara kominn heim. En það var sem sagt Sigurjón sem hafði samband við mig og ég gat eiginlega ekki sagt nei, sérstaklega ekki þegar Landeyjahöfn er komin. Svo er það líka spennandi verkefni að taka við heilu félagi, taka meistaraflokk og yngri flokkana með og fá svolítið að móta þetta eftir mínu höfði."
Krakkarnir verða að velja
Jón Gunnari kom á óvart hversu mikill rígur er á milli íþróttagreina í Vestmannaeyjum.
Það er eðlilegt að það sé einhver rígur á milli krakkanna en að það sé rígur á milli meðal fullorðna fólksins var eitthvað sem kom mér mjög á óvart. Það eru ekki allir sem finna sig í handbolta og fótbolta en gera það í frjálsum, sundi, fimleikum eða körfubolta. Það á að gefa börnum tækifæri til að finna sig í sinni íþrótt en ekki þvinga þau til þess að velja eina íþróttina umfram aðra. Ef krakkar velja handbolta, þá er það frábært en þau verða líka að fá tækifæri til að velja körfubolta. Valið verður að vera þeirra."
Hefurðu sett þér einhver markmið með meistaraflokk ÍBV í körfubolta?
Markmiðið er auðvitað að byggja upp öflugt lið. Við kannski setjum ekki stefnuna á að fara upp í 1. deild, þótt það væri auðvitað mjög gaman. En miðað við þann hóp sem ég hef séð þá eigum við alveg að geta barist um að komast í úrslitakeppnina og svo sjáum við til hvað gerist þar. Hópurinn er auðvitað tvískiptur enda margir leikmenn liðsins sem eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Mér sýnist að það séu einfaldlega ekki nógu margir leikmenn hér til að fylla hópinn," sagði Jón Gunnar að lokum og skoraði á alla að prófa körfubolta.
Viðtalið birtist í vikublaðinu Fréttum.
Um bloggið
IBV KARFA
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.